Alabadla fái hæli á Íslandi

 
Fathia og Mohammad Alabadla og börnin þeirra þrjú fengu á dögunum úrskurð þar sem þeim var hafnað um dvalarleyfi hér á landi. Fjölskyldan er flóttafjölskylda frá Palestínu en þau komu hingað til lands eftir margra ára flakk milli flóttamannabúða í Grikklandi. Börnin voru hrædd og brotin eftir veru þeirra þar en hafa loksins fengið fótfestu og öryggi í samfélaginu okkar og orðið vinir okkar og félagar sem og þátttakendur í íþrótta- og félagslífi hverfisins.
 
Eldri börnin þeirra tvö stunda nám í Engjaskóla en yngsta barnið er á leikskólanum Engjaborg. Þau eru farin að tala íslensku og hafa eignast vini. Fjölskyldan hefur lagt sig fram við að aðlagast nýjum aðstæðum, gera allt úr engu og biðja ekki um neitt nema öryggi eftir margra ára flakk milli flóttamannabúða í Grikklandi.
 
Við í foreldrafélagi Engjaskóla, nemendur og aðrir sem koma samfélagslega að Alabadla fjölskyldunni erum ekki sátt við þá niðurstöðu að þau fái ekki landvistarleyfi á Íslandi og að það eigi að senda þau að nýju út í óvissuna. Við viljum að ráðamenn þessa lands grípi inn í og stoppi þetta óréttlæti sem brottrekstur þeirra úr landinu er. Á meðan fjöldi flóttamanna eru sóttir og fluttir hingað til lands sem kvótaflóttamenn er verið að vísa fjölskyldu með 3 ungum börnum úr landi. Það að þau hafi fengið dvalarleyfi í Grikklandi, sem á við um fjölda flóttamanna, tryggir ekki stöðu þeirra í heiminum, hvað þá öryggi og velferð barnanna. Staðan í Grikklandi er slæm og mun fjölskyldan lenda á götunni.
 
Við undirrituð förum því fram á að fjölskyldunni verði ekki vísað úr landi heldur verði veitt varanlegt landvistarleyfi. Undirskriftasöfnunin er sett fram með því markmiði að fjölskyldan sem er hluti af okkar samfélagi fái að búa sér til öruggt og farsælt líf og um leið enda þá óvissu sem fjölskyldan hefur þurft að búa við undanfarin ár á vergangi víðsvegar um heiminn.
 
Þessi undirskriftarlisti er settur fram í samráði við lögfræðing fjölskyldunnar og verður afhentur að undirskriftum loknum.

IMG_9277.jpg