Opið bréf frá evrópskum rithöfundum

Til evrópskra ráðamanna, Opið bréf frá evrópskum rithöfundum (22. Október 2015)

 

Verndið rithöfundana, verjið höfundarréttinn!                  

 

Verum hreinskilin: Við rithöfundarnir skiljum ekki þessa áherslu á það að vilja með öllum ráðum „endurbæta“ höfundarréttinn í Evrópu.              

Framkvæmdastjórn Evrópuráðsins beinir spjótum sínum að röngu marki þegar hún ræðst á höfundarréttinn til að auðvelda tilkomu „einstaks stafræns markaðar“, því höfundarrétturinn er ófrávíkjanleg (sine qua non) forsenda fyrir sköpun bókmenntaverka. Ef dregið er úr vægi hans er hætta á að uppgangur rafbókamarkaðarins verði kæfður í fæðingu jafnvel áður en hann nær að taka fyrstu skrefin. Máttlítill höfundarréttur þýðir í raun fátæklegri bókmenntir.              

Höfundarrétturinn er ekki hindrun á flæði bókmenntaverka. Framsal réttinda okkar gerir kleift að dreifa verkunum um allan heim og þýða þau yfir á öll möguleg tungumál. Ef eitthvað er hægt að segja að hamli dreifingu eru það fjárhagslegar, tæknilegar eða skattalegar ástæður og réttara væri að ráðast á einokunarfyrirtækin, eignarhaldsaðilana eða skattsvikarana!              

Með því að samþykkja töluvert betrumbætta útgáfu af skýrslu Julia Reda hefur Evrópuþingið staðfest með afgerandi hætti mikilvægi þess að verja höfundarréttinn og hið viðkvæma efnahagslega jafnvægi sem til staðar er í sköpunarheiminum. Á sama tíma hefur þingið því miður opnað upp á gátt fyrir óendanlega mörgum undanþágum frá höfundarréttinum – undanþágum sem framkvæmdastjórnin gæti oft á tíðum hafa komið á, víkkað út, gert að skyldu og staðlað, þvert ofan í lausnir sem ríki hafa þegar tekið upp sem svar við þörfum lesenda og annarra notenda.              

Að hvaða leyti gæti fjölgun undanþága frá höfundarréttinum verið sköpuninni hagstæð? Hvað þurfa undanþágur að vera margar (skjölun, rafræn lán, kennsla, rannsóknir, gagna- og textanám, ummyndandi notkun, ófáanleg verk, munaðarlaus verk ...) til að undanþágan verði að reglu og höfundarrétturinn að undanþágu?              

Höfundarrétturinn er okkur nauðsynlegur því hann veitir okkur fjárhagsleg réttindi og siðferðilegan rétt á eigin verkum.              

Höfundarrétturinn er grunnurinn sem okkar evrópski bókmenntaarfur byggir á; hann er uppspretta efnahagslegra gæða sem nýtast löndum okkar og að sama skapi uppspretta ýmissa starfa; hann er trygging á fjármögnun sköpunarinnar og varanleika allrar bókmenntakeðjunnar; hann er grunnurinn að tekjunum okkar. Hann tryggir frelsi okkar og sjálfstæði með því að gera okkur kleift að njóta ávaxta vinnu okkar. Við viljum hvorki snúa aftur til þess að vera komin upp á fjárstuðning einstaklinga né lifa á hugsanlegum opinberum styrkjum heldur viljum við getað lifað af afrakstri verka okkar. Ritstörf eru starf en ekki tómstundaiðja.              

Höfundarrétturinn hefur gert almenna útrás bókarinnar mögulega gegnum aldirnar og í framtíðinni verður það einnig hann sem ýtir undir þróun stafrænnar sköpunar og dreifingu hennar til almennings. Höfundarrétturinn er í senn arfur úr fortíð og nútímatól, samrýmanlegur notkun nýrrar tækni.              

Við verðum að hætta að stilla höfundum upp gegn lesendum. Bókmenntir væru ekki til án þeirra fyrrnefndu og þær væru til lítils án þeirra síðarnefndu. Rithöfundar eru upp til hópa opnir fyrir breytingum og þróun heimsins sem þeir lifa í. Þeir standa vörð af meira kappi en flestir aðrir um réttinn til skoðanafrelsis, tjáningarfrelsis og sköpunarfrelsis. Þeir eru jákvæðir fyrir miðlun hugmynda og þekkingar, það er kjarni þeirra tilveru. Þeir voru lesendur áður en þeir gerðust höfundar.              

Við, evrópskir rithöfundar, biðjum Evrópu að hætta að teygja mörk undanþága frá höfundarréttinum og hætta að fjölga þeim. Trygging fyrir einhvers konar „sárabótum“ getur aldrei komið í staðinn fyrir tekjur fengnar af sölu á afnotarétti okkar verka, jafnvel nú þegar höfundar eru í vaxandi mæli fórnarlömb efnahagslegrar óvissu. Við biðjum Evrópu að berjast gegn þeirri villandi „allt frítt“ freistingu, þar sem þeir einu sem hag munu hafa af eru stóru dreifingaraðilarnir og aðrir bókaheildsalar. Við biðjum Evrópu um að hjálpa okkur að fá réttlátari hlut af virði bókarinnar, sér í lagi á stafrænum markaði, koma í veg fyrir íþyngjandi samningsákvæði og berjast ötullega gegn sjóræningjastarfsemi á verkum okkar.              

Frelsi höfundanna og lífskraftur evrópskrar menningar er einnig undir ykkur komið.    

 

(Þýðing: Guðrún C. Emilsdóttir)