VIÐ SKORUM Á STJÓRNVÖLD AÐ VEITA AFGÖNSKUM MÆÐGUM HÆLI Á ÍSLANDI

Við undirrituð skorum á kærunefnd útlendingamála að endurskoða niðurstöðu um að senda Maryam Raísi og Torpikey Farrash frá Afganistan til baka til Svíþjóðar. Við skorum á íslensk stjórnvöld að taka fyrir mál þeirra á Íslandi og veita hér hæli. Þær mæðgur eru í erfiðri stöðu en þær eru Shia múslimar og tilheyra minnihlutahópi Hazara sem á undir högg að sæta í Afganistan. Staðreyndir um líf kvenna í Afganistan eru vel þekktar og landið eitt hið versta þegar kemur að réttindum og öryggi kvenna í heiminum. Fyrir utan að tilheyra minnihlutahópum eru þær Maryam og Torpikey konur án verndar á stríðsátakasvæði og í feðraveldissamfélagi. Mayam og Torpikey eiga heima undir verndarvæng Íslands.  

Þær mæðgur hafa verið á flótta í áraraðir og hefur Maryam í raun aldrei kynnst annarskonar lífi en á flótta. Torpikey þjáist af alvarlegri áfallastreituröskun og langvarandi kvíða vegna þessa og vegna óvissu um framtíð dóttur sinnar. Lokasynjun hér á landi og endursending þeirra mæðgna til Svíþjóðar yrði þeim báðum enn eitt áfallið í ævilangri leit að öryggi og vernd. Verði þeim vísað til Svíþjóðar eiga þær fyrir höndum vonlitla baráttu til þess að fá leiðrétt mistök í meðferð máls þeirra og þar liggur fyrir að þær verði umsvifalaust sendar til baka til Afganistan þar sem þær yrðu í bráðri hættu.