Auknar loftgæðamælingar í Hvalfirði
Iðjuverin á Grundartanga losa árlega mikið magn eiturefna út í andrúmsloftið. Skaðsemi efna á borð við flúor og brennistein fyrir náttúru og lífríki er vel þekkt. Losun eiturefnanna á sér stað allan ársins hring. Þrátt fyrir það fer umhverfisvöktun vegna flúors í andrúmslofti utan iðjuveranna aðeins fram frá apríl til október, þ.e. hálft árið. Þetta gerist þrátt fyrir margítrekaðar ábendingar Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð um að sum húsdýr séu á beit yfir vetrartímann.
Einnig er heimilt samkvæmt starfsleyfi viðkomandi iðjuvers, að auka útsleppi flúors á vetrarmánuðum, þegar flúor í andrúmslofti er ekki mældur, á þeim forsendum að það sé utan vaxtar og beitartíma. Sjá grein 2.1.6. í starfsleyfi:
Það er gríðarlega mikilvægt fyrir heilsu manna og dýra sem og fæðuöryggi í Hvalfirði, að hægt sé að fylgjast með eiturefnum í lofti og staðreyna mengun á hverjum tíma. Það hlýtur einnig að vera umhverfisyfirvöldum og iðjuverunum sjálfum kappsmál að hafa þessar upplýsingar.
Við biðjum þig að taka undir áskorun okkar um að auka loftgæðamælingar vegna flúors í Hvalfirði með því að ljá undirskrift þína hér að neðan.
Við skorum á yfirvöld umhverfismála að hefja vöktun á flúori yfir vetrartímann, frá og með október 2013. Mælt verði flúor í öllum mælitækjum fyrir loftgæði sem gert er ráð fyrir í gildandi vöktunaráætlun.
Nánari upplýsingar um mengandi útblástur, mengunareftirlit og Umhverfisvaktina við Hvalfjörð má finna hér: www.umhverfisvaktin.is
Umhverfisvaktin við Hvalfjörð Hafðu samband við höfund undirskriftarlistans
Tilkynning frá stjórnanda þessarar vefsíðuVið höfum lokað þessari undirskriftasafnan og fjarlægt persónulegar upplýsingar um undirritendur.Almenn persónuverndarreglugerð Evrópusambandsins (GDPR) krefst lögmætrar ástæðu fyrir geymslu persónuupplýsinga og að upplýsingarnar séu geymdar eins stutt og mögulegt er. |