Fáum Vilhelm Neto til að kynna stig Íslands í Eurovision!

Sannfærum RÚV að Vilhelm Neto sé lang lang besti kosturinn til að kynna stig okkar í Eurovision. Hálfur portúgali, hálfur íslendingur og heill snillingur.

Eftirfarandi texti er úr Fréttablaðinu og segir allt sem segja þarf:


É
g er eiginlega alveg orðlaus yfir stuðningnum sem ég hef fengið,“ segir Vilhelm Neto, leiklistarnemi, yfir viðbrögðum sem hann hefur fengið eftir að hann greindi frá því á Twitter-síðu sinni að hann ætti þann draum heitan að vera stigakynnir Íslands í Eurovision. Keppnin fer að þessu sinni fram í Portúgal, öðru heimalandi Vilhelms, eða Villa eins og hann er gjarnan kallaður.

Hann stundar um þessar mundir nám í leiklist í Kaupmannahöfn og er einnig í miklum metum í íslenska Twitter samfélaginu þar sem hann grínast á degi hverjum. Fylgjendur hans eru rétt tæplega fimm þúsund sem verður að teljast alveg hreint ljómandi gott.

Ólst upp í Portúgal

„Það hefur alltaf verið draumurinn að vera stigakynnir einhvern veginn og það væri fullkomið núna. Þegar ég ólst upp í Portúgal þá komum við fjölskyldan okkur alltaf saman og horfðum á Eurovision og héldum með Íslandi,“ segir Villi í samtali við Fréttablaðið.

Faðir hans er portúgalskur og móðir hans íslensk. Hann fæddist og ólst upp í Portúgal til ársins 2007 þegar hann flutti til Íslands. Bæði lönd tengjast honum því sterkum böndum.

Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa. Þegar þessi frétt er skrifuð hefur Villi fengið á fjórða hundrað „læk“ á færslu sína á Twitter, auk þess sem margir hafa deilt henni og skorað á RÚV að gefa honum sénsinn.

Þrýstingurinn varð svoleiðis að RÚV sá sig knúið til þess að svara. Segir í svari þeirra að upplýsingunum verði komið áleiðis til dagskrárstjóra.

Táraðist í eigin Eurovision party

Villi segist hafa átt erfitt með að halda aftur af tilfinningunum í fyrra þegar hinn heillandi Salvador Sobral gjörsigraði keppnina með laginu „Amar pelos dois“. 

„Já, ég táraðist í eigin Eurovision party,“ segir Villi og bætir við. „Ég hélt með Salvador alveg strax frá byrjun, horfði á undankeppnina og allt. Ég fann á mér hvað þetta lag væri fallegt og ætti möguleikann á því að vinna. En svo þegar það vann þá tóku tilfinningarnar gjörsamlega yfir.“

Hann segir að það yrði draumi líkast að fá að kynna stigin fyrir Íslands hönd, sama ár og keppnin fer fram í Portúgal. Hann líti á þau bæði sem „sín lönd“.

„Það er eitthvað við það.“

Að lokum vill hann koma eftirfarandi skilaboðum áleiðis til RÚV:

„Ef þið eruð til í að fá mig, þá er ég meira en til!“