Frístundaheimilið Glaðheima á barnvænni stað
Undirskriftasöfnun til að þrýsta á um flutning frístundaheimilisins Glaðheima á barnvænni stað nær Langholtsskóla en það nú er á.
Foreldrar og forsjárfólk barna í Langholtsskóla fara fram á það við Reykjavíkurborg að frístundaheimilinu Glaðheimum verði fundin betri og barnvænni staðsetning en sú sem nú er notuð. Frístundaheimilið er nú staðsett á horni Sæbrautar og Holtavegar, en sú staðsetning hefur mikla slysahættu, hávaða- og eiturefnamengun frá bílaumferð í för með sér. Nýverið varð barn fyrir bíl á leið sinni heim úr frístundaheimilinu á gatnamótum Holtavegar og Langholtsvegar.
Lóð frístundaheimilisins er ógirt og er þar af leiðandi opin leið beint út á Sæbraut fyrir börn sem ekki hafa þroska eða reynslu til að leggja mat á hættuna sem þau geta komið sér í. Þó að starfsfólk sé á varðbergi eru börnin svo mörg að það er hætta á að þau geti þrátt fyrir það farið sér að voða.
Að auki er verslun með kynlífsvörur og tilheyrandi útstillingum andspænis frístundaheimilinu, á Holtavegi. Foreldrum þykir almennt afar óviðeigandi að staðsetja slíka verslun í nærumhverfi barnanna.
Það ætti að vera viðráðanlegt verkefni að finna frístundaheimilinu nýja og varanlega staðsetningu í Laugardalnum. Ónýtt lóð er neðan við lóð Langholtsskóla, þ.e. sunnan megin, sem gæti verið kjörin staðsetning fyrir öruggt og barnvænt frístundaheimili. Fleiri svæði virðast möguleg, svo sem á sömu lóð og frístundaheimilið Dalheimar er staðsett á.
Samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna eiga börn rétt á að lifa og þroskast í besta mögulega umhverfi. Allar ákvarðanir stjórnvalda ber að taka með sjónarmiðið um það sem barni er fyrir bestu í forgangi. Okkur ber að tryggja börnunum okkar þá vernd og umönnun sem þau eiga tilkall til og rétt á, á grundvelli Barnasáttmálans sem nú hefur lagagildi á Íslandi.
Við skorum á Reykjavíkurborg að bregðast við fyrir börnin okkar sem allra fyrst.
Þóra Jónsdóttir Hafðu samband við höfund undirskriftarlistans
Höfundur undirskriftarlistans hefur lokað honum.Tilkynning frá stjórnanda þessarar vefsíðuVið höfum fjarlægt persónuupplýsingar undirritenda.Almenn persónuverndarreglugerð Evrópusambandsins (GDPR) krefst lögmætrar ástæðu fyrir geymslu persónuupplýsinga og að upplýsingarnar séu geymdar eins stutt og mögulegt er. |