Garðyrkjuskólinn - Garðyrkjunám út úr Landbúnaðarháskóla Íslands

Við viljum Garðyrkjuskólann út úr LbhÍ áður en garðyrkjunám og þar með garðyrkjufagið verður lagt endanlega í rúst á Íslandi.

Árið 2005 voru þrjár stofnanir sameinaðar í eina sem hlaut heitið Landbúnaðarháskóli Íslands. Stofnanirnar sem um ræðir voru Bændaskólinn á Hvanneyri, Rannsóknastofnun landbúnaðarins (RALA) og Garðyrkjuskóli Ríkisins. Sameinuð stofnun er nú að verða fimmtán ára gömul og er með þrjár aðal starfstöðvar sem eru á Hvanneyri, Keldnaholti og á Reykjum í Ölfusi þar sem garðyrkjunám á starfsmenntastigi er hýst.

Fyrstu ár sameinaðrar stofnunar voru erfið fjárhagslega og eins og gefur að skilja þá er erfitt að sameina starfslið sem staðsett er á þrem starfstöðvum þegar bitist er um aur í reksturinn. Áttu þá stjórnendur skólans það oft til að horfa til niðurskurðar í starfsmenntanáminu þegar spara átti pening og þá sérstaklega í starfstöðinni sem hýsir garðyrkjunámið á Reykjum í Ölfusi. Lengi var rætt um að loka starfstöðinni á Reykjum og flytja deildina upp á Hvanneyri þar sem höfuðstöðvar skólans eru staðsettar.  Alltaf hefur þó niðurstaðan orðið sú að best væri að halda garðyrkjunáminu á sínum stað í nágrenni við höfuð vígi garðyrkjunnar á Íslandi, á suðurlandi.

Í gegnum þessi tæpu 15 ár frá sameiningu þessara stofnana hefur iðn- og starfsmenntanám innan LbhÍ ítrekað þurft að berjast fyrir sínum tilverurétti þegar stjórnendur skólans, sem flestir koma úr háskólasamfélaginu, reyna að máta námið inn í einhverskonar háskólabúning. Tillögur af ýmsu tagi hafa komið upp og í gegnum þær allar skín alger vanskilningur á því hvernig nám í iðn- og starfsgreinum virkar og í hvaða tilgangi kennsla í þessum greinum fer fram á framhaldsskólastigi, enda hafa allar þessar tilraunir fallið um sig sjálfar á endanum. En menn eru ekki af baki dottnir og nú er enn ein atlagan gerð að starfsmenntanámi innan Landbúnaðarháskóla Íslands að frumkvæði nýskipaðs rektors sem hefur sér til fylgdar háskólaráð LbhÍ.

Nú á að sníða starfsmenntanámið inn í háskóladeildir skólans og fela það þar. Allt er þetta gert undir þeim formerkjum að efla eigi starfsmenntanámið en þegar kafað er dýpra ofan í fyrirætlanir rektors skín gegn að umrædd efling mun eingöngu gagnast háskólanáminu í formi rannsókna og nýsköpunar á háskólastigi. Kostirnir fyrir starfsmenntanámið í þessu samkurli eru engir og þar með engin efling á því hér á ferð.

Hagaðilar garðyrkjugreinanna hafa á fimmtán árum ítrekað þurft að standa vörð um námið, biðla til ráðamanna um fjármagn til viðhalds fasteigna og fleira til að halda kennslunni í þessari mikilvægu grein gangandi. Aldrei heldur friðurinn lengur en þar til næsti rektor er ráðinn til starfa og þá byrjar sagan að endurtaka sig.

Fimmtán ára barátta og barningur um þetta nám er ekki það sem fagmenn í þessum geira áttu von á þegar þessi sameining var gerð árið 2005 og nú er komið nóg!

Endapunktinum er náð!

Það er fullreynt og staðfest að iðn- og starfsmenntanám á ekki heima inni í háskóla og tíminn er kominn á að ná því þaðan út aftur.

Við viljum Garðyrkjuskólann út úr LbhÍ áður en garðyrkjunám og þar með garðyrkjufagið verður lagt endanlega í rúst á Íslandi.  

 

Uppfært 7.11.2019
Á fundi í Menntamálaráðuneyti 1.nóv, var ákveðið að setja ætti áætlanir um nýtt skipurit og stefnu LbhÍ í pásu og skipa starfshóp til að fjalla um það hvort halda ætti áfram með þessa vinnu eða hvort samleið starfsmenntanáms og háskólanáms innan LbhÍ væri lokið. Starfshópurinn mun skila af sér fyrir jól niðurstöðu um framhaldið.
Rektor heldur engu að síður ótrauð áfram í innleiðingu nýs skipurits fyrir áramót sem er þvert á það er ráðherra lagði til að fundinum 1. nóv. Í þessu nýja skipuriti er stefnt að því að starfsmenntanám verði skilgreint sem aðfaranám fyrir háskóla og brautum starfsmenntanámsins raðað inn í þrjár mismunandi háskóladeildir skólans. 

Af þessum sökum teljum við mikilvægt að halda áfram að safna undirskriftum á þennan lista þar sem það er greinilegt að garðyrkjunámið er ekki hólpið innan LbhÍ til framtíðar. Þessar undirskriftir munu vonandi hvetja aðila þessa starfshóps til þess að skoða þann möguleika alvarlega að kljúfa Garðyrkjuskólann út úr þessu bákni sem Landbúnaðarháskóli Íslands virðist vera orðið.