Höldum sjúkrabílnum í Ólafsfirði

Ágætu íbúar Fjallabyggðar og Tröllaskaga nú er enn og aftur komið að því að stjórnendur 

heilbrigðistofnunarinnar sem fer með málefni sjúkrabílsins okkar í Ólafsfirði eru að gera 

atlögu að því að leggja niður starfsemi hans, eins og hún er í núverandi mynd.

Það hefur verið sjúkrabíll staðsettur í Ólafsfirði í rúm 30 ár. Deild Rauða Krossins í Ólafsfirði 

safnaði fyrir þeim bíl og var sá bíll alfarið í eigu Ólafsfirðinga.

Aðstæður á Tröllaskaganum eru orðnar þannig í dag að það er mjög svo aukin ásókn 

ferðamanna á svæðinu og aðstæður, sérstaklega á verturnar oft erfiðar og við erum 

umkringd nokkrum af hættulegustu þjóðvegum landsins. Einnig er töluvert mikill fjöldi fólks 

sem er á ferð um fjöllin á Tröllaskaganum, skipta stundum hundruðum yfir daginn, hvort sem 

það er gangandi, á ferð með snjótroðara eða á flugi upp á hæstu fjallstoppa með þyrlum.

Tröllaskaginn er stórt og erfitt svæði, og eru sjúkrabílar svæðisins að fara samanlagt í u.þ.b. 

400 sjúkraflutninga yfir árið. Sjúkrabíllinn í Ólafsfirði er staðsettur miðsvæðis á 

Tröllaskaganum og því ALLTAF MEÐ STYSTAN VIÐBRAGÐSTÍMA ef kalla þarf út auka 

sjúkrabíl. Það er mjög oft yfir árið sem tveir bílanna er á ferðinni á sama tíma og hefur það 

komið fyrir að þeir eru allir á ferðinni samtímis. Það koma vissulega upp þær aðstæður að 

það skiptir öllu máli að viðbragðstími sjúkrabílsins verði sem stystur. Hver mínúta getur skipt 

máli og hefur það svo sannarlega sýnt sig oftar en einu sinni.

Við undirrituð skorum hér með á forstjóra og framkvæmdastjórn 

Heilbrigðisstofnunar Norðurlands að hafa fyrirkomulag sjúkraflutninga í 

Ólafsfirði og á Tröllaskaganum áfram með óbreyttu sniði.

Einnig skoðum við á Heilbrigðisráðherra og hans ráðuneyti að sjá til þess að 

sjúkraflutningar á Tröllaskaganum verði áfram með óbreyttu sniði og sjá til 

þess að við fáum að halda þessu nauðsynlega öryggistæki áfram í 

byggðarlaginu okkar.