Stöðvum fyrirhugaða lokun unglingasmiðjanna Stígs og Traðar
Við undirrituð mótmælum harðlega áformum Reykjavíkurborgar um að leggja niður starfsemi Stígs á Hverfisgötu og Traðar í Gerðubergi. Unglingasmiðjurnar hafa verið starfræktar áratugum saman og sýnt statt og stöðugt fram á mikilvægi þeirra fyrir félagslega einangruð ungmenni. Sum hver eru að upplifa það að eiga jákvæð samskipti við jafnaldra í fyrsta sinn í langan tíma, að eignast vini og að tilheyra. Reynslan sýnir okkur hversu mikilvægt það er fyrir þennan hóp ungmenna að eiga einhvern stað, einskonar öruggt rými, þar sem þau eru samþykkt í hópi jafnaldra, þar sem þátttaka þeirra skiptir hópinn máli og þau fá að skrifa sögu sína upp á nýtt. Mörg þeirra hafa upplifað einelti og er það oft ein ástæða þess að þau sækja ekki í félagsskap í sínu nærumhverfi, hvort sem er í skóla eða félagsmiðstöð. Í gegnum tíðina hafa Unglingasmiðjurnar gegnt mikilvægu hlutverki fyrir fjölmörg ungmenni, á meðan þau byggja upp traust á ný og æfa sig í samskiptum, efla færnina og sjálfstraustið sem leiðir til virkni og þátttöku í þeirra nærumhverfi.
Verndarar Stígs og Traðar Hafðu samband við höfund undirskriftarlistans