Stöðvun framkvæmda við golfvöll á Norðurnesi
Að undanförnu hafa átt sér stað miklir jarðvegs- og moldarflutningar inn á svæði á norðanverðu Álftanesi meðfram Jörfavegi þar sem fyrirhugað er skv. drögum að deiliskipulagi fyrir Norðurnes að byggja nýjan golfvöll. Deiliskipulag þetta hefur verið forkynnt og hafa athugasemdir verið gerðar við skipulagið. Endanlegt deiliskipulag hefur ekki verið staðfest af Skipulagsstofnun.
Þetta svæði er rétt við nýlega endurheimt votlendi, og skýtur skökku við að ráðast í þessar miklu framkvæmdir með fyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir vaxandi fuglalíf á staðnum og tilheyrandi sótspori.
Í 1. mgr. 12. gr. skipulagslaga segir að bygging húsa og annarra mannvirkja ofan jarðar og neðan og aðrar framkvæmdir og aðgerðir sem hafa áhrif á umhverfið og breyta ásýnd þess skuli vera í samræmi við skipulagsáætlanir.
Undirrituð hafa ekki vitneskju um hvort búið sé að veita framkvæmdaleyfi fyrir þessum flutningi efnis inn á 1, 2 og 3 áfanga golfvallarreits. Í 1. mgr. 53. gr. skipulagslaga segir að ef framkvæmdaleyfisskyld framkvæmd sé hafin án þess að leyfið sé fengið fyrir henni skuli skipulagsfulltrúi stöðva slíkar framkvæmdir tafarlaust og leita staðfestingar sveitarstjórnar.
Þá segir í málgreininni að ef framkvæmdaleyfi brjóti í bága við skipulag skuli skipulagsfulltrúi stöðva slíkar framkvæmdir.
Undirrituð krefjast þess að þessir efnisflutningar verði stöðvaðir þegar í stað þar sem framkvæmd, sem leyfi tekur til, á að vera í samræmi við skipulag. Ef stöðvun framkvæmda er hafnað íhuga undirrituð að krefjast úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða í samræmi við 5. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.
Guðmundur Andri Thorsson og Ingibjörg Eyþórsdóttir Hafðu samband við höfund undirskriftarlistans