Við viljum Langspil aftur á dagskrá!
Við mótmælum óútskýrðri og óskiljanlegri ákvörðun Rásar 2 að taka af dagskrá tónlistarþáttinn Langspil - íslenskt já takk!
Þátturinn er búinn að vera á dagskrá stöðvarinnar frá því í október 2013 í öruggum höndum Heiðu Eiríksdóttur. Þátturinn er fyrir löngu búinn að skapa sér mikilvæga stöðu í íslensku tónlistarlandslagi sem vagga nýrrar tónlistar frá íslensku tónlistarfólki á öllum aldri.
Vaxtarbroddur íslensku tónlistarsenunnar hefur aukist gífurlega síðustu ár með tilkomu þáttarins sem hefur verið mikilvægur og þarfur vettvangur fyrir íslenskt tónlistarfólk að heyra tónlistarsköpun annara og hafa möguleika á því að heyra og kynna sína eigin tónlistarsköpun. Það mun verða mikill og sár missir að hafa engan samastað fyrir nýja, neðanjarðar og jaðartengda tónlist í útvarpi allra landsmanna.
Síðasti þátturinn sem var sendur út núna í vor var 205 í röðinni. Í þáttunum eru að meðaltali spiluð 20-22 lög og það einungis með íslenskum flytjendum. Það gerir eitthvað um 4300 lög á þessum fimm árum sem þátturinn hefur verið á dagskrá stöðvarinnar. Þetta er gífurlegur fjöldi laga og mikil meirihluti þeirra væri líklega aldrei spilaður í öðrum þáttum og hvað þá á öðrum útvarpsstöðvum.
Sú ákvörðun að taka þáttinn af dagskrá án neinnar útskýringar er móðgun við íslenskt tónlistarfólk og gífurlegt hagsmunamál þeirra þegar tekin eru inn í jöfnuna stefgjöld og sýnileiki (eða öllu heldur heyranleiki) íslensks tónlistarfólks á öldum ljósvakans.
Við skorum á dagskrárstjóra Rásar 2 að endurskoða ákvörðun sína og sýna íslensku tónlistarfólki áhuga og virðingu.
Curver Thoroddsen Hafðu samband við höfund undirskriftarlistans
Tilkynning frá stjórnanda þessarar vefsíðuVið höfum lokað þessari undirskriftasafnan og fjarlægt persónulegar upplýsingar um undirritendur.Almenn persónuverndarreglugerð Evrópusambandsins (GDPR) krefst lögmætrar ástæðu fyrir geymslu persónuupplýsinga og að upplýsingarnar séu geymdar eins stutt og mögulegt er. |