Við viljum Langspil aftur á dagskrá!

Screen_Shot_2018-09-17_at_23.25_.00_.png

Við mótmælum óútskýrðri og óskiljanlegri ákvörðun Rásar 2 að taka af dagskrá tónlistarþáttinn Langspil - íslenskt já takk! 

Þátturinn er búinn að vera á dagskrá stöðvarinnar frá því í október 2013 í öruggum höndum Heiðu Eiríksdóttur. Þátturinn er fyrir löngu búinn að skapa sér mikilvæga stöðu í íslensku tónlistarlandslagi sem vagga nýrrar tónlistar frá íslensku tónlistarfólki á öllum aldri.

Vaxtarbroddur íslensku tónlistarsenunnar hefur aukist gífurlega síðustu ár með tilkomu þáttarins sem hefur verið mikilvægur og þarfur vettvangur fyrir íslenskt tónlistarfólk að heyra tónlistarsköpun annara og hafa möguleika á því að heyra og kynna sína eigin tónlistarsköpun. Það mun verða mikill og sár missir að hafa engan samastað fyrir nýja, neðanjarðar og jaðartengda tónlist í útvarpi allra landsmanna.

Síðasti þátturinn sem var sendur út núna í vor var 205 í röðinni. Í þáttunum eru að meðaltali spiluð 20-22 lög og það einungis með íslenskum flytjendum. Það gerir eitthvað um 4300 lög á þessum fimm árum sem þátturinn hefur verið á dagskrá stöðvarinnar. Þetta er gífurlegur fjöldi laga og mikil meirihluti þeirra væri líklega aldrei spilaður í öðrum þáttum og hvað þá á öðrum útvarpsstöðvum.

Sú ákvörðun að taka þáttinn af dagskrá án neinnar útskýringar er móðgun við íslenskt tónlistarfólk og gífurlegt hagsmunamál þeirra þegar tekin eru inn í jöfnuna stefgjöld og sýnileiki (eða öllu heldur heyranleiki) íslensks tónlistarfólks á öldum ljósvakans. 

Við skorum á dagskrárstjóra Rásar 2 að endurskoða ákvörðun sína og sýna íslensku tónlistarfólki áhuga og virðingu.